Viðburðir innanlands sem utan

Fjölmörg mót og sýningar eru haldin í mörgum löndum allan ársins hring. Stærstu viðburðirnir eru án efa Heimsmeistaramót íslenska hestsins og Landsmót hestamanna en þau eru haldin annað hvert ár. Á Landsmóti hestamanna gefur að líta bestu hesta landsins í keppni og á sýningu. Þar sem innflutningur hesta er bannaður með lögum þá eru einungis hestar frá Íslandi á Landsmóti.

Heimsmeistaramót íslenska hestsins er ætíð haldið utan Íslands og taka íslenskir hestamenn þátt í því þrátt fyrir að hestar þeirra geti ekki snúið aftur til landsins. Það þýðir líka að hestar frá Íslandi sem gætu verið í efstu sætum á Heimsmeistaramóti taka oft ekki þátt þar sem eigendur þeirra vilja síður missa þá úr landi.

rich-text-image

Um 10.000 manns heimsækja þessu mót. Flestir mótsgesta eru hestafólk en margir koma einnig til þess að upplifa einstakt andrúmsloftið, hitta gamla vini, eignast nýja eða einfaldlega skemmta sér innan um gæðinga og fólk með svipaða lífssýn í skemmtilegu samfélagi hestamanna.

Stóðréttir eru fjölsóttir viðburðir og fylgja í kjölfar fjárrétta að hausti. Hestamenn fara þá til fjalla og reka stóðin sem hafa verið þar á beit allt sumarið niður í byggð. Stundum eru menn marga daga á fjalli. Fólk drífur víða að í stóðréttirnar sem haldnar eru víðs vegar um landið. Margir eiga sér sínar eftirlætis stóðréttir sem er þeir mæta í árlega og fagna því að hrossin séu komin af fjalli með vinum og fjölskyldu. Ekki er óalgengt að í stóðréttum festi menn kaup á reiðhesti eða meri til undaneldis.

Hlekkir:

www.feif.org


www.landsmot.is

Viðburðir um íslenska hestinn