Sigrún Helga Halldórsdóttir (11) og Arnar Orri Guðmundsson (18) hafa bæði alist upp í kringum hesta, njóta þess að vera í nærveru við dýr og hafa unun af því að fara á bak, keppa og ríða út í náttúrunni.
Sigrún Helga
 
Sigrún Helga man ekki hvað hún var ung þegar hún var fyrst á hestbak, „en ég byrjaði að ríða ein úti í gerði þegar ég var fjögurra, fimm ára,“ segir hún. Hún fór líka fljótlega að fara í reiðtúra með foreldrum sínum. Til að byrja með voru þau með hestinn hennar í taumi, en frá fimm eða sex ára aldri gat hún haldið í tauminn sjálf og stjórnað hestinum alein. „Ég var aldrei hrædd,“ segir hún. 
 
Sigrúnu Helgu finnst skemmtilegt að ríða út í sveitinni hjá ömmu sinni og afa á bænum Bjargshóli í Miðfirði í Vestur-Húnavatnssýslu. Þau bjóða upp á hestaferðir úti í náttúrinni, sem er vinsælt meðal útlendinga, og ferðamenn fá líka að vera með þegar þau eru að smala kindunum á haustin. Hún er oft hjá þeim þegar hún er í fríi í skólanum, en hún býr í Reykjavík, og þar er fjölskyldan með hesthús í Víðidal. 
 
Hún hefur líka farið á mörg reiðnámskeið og mælir með því við krakka sem vilja prufa að fara á hestbak. „Það er mjög gaman. Ég lærði að setja hnakkinn á og eiginlega allt.“ Sigrún Helga er í hestamannafélaginu Fáki og hún keppir oft fyrir hönd félagsins. Hún ríður út næstum því á hverjum degi til að æfa sig, mest á hryssunni Gefjunni frá Bjargshóli, sem amma hennar og afi eiga. „Hún er góð hryssa og auðvelt að stjórna henni,“ segir Sigrún Helga. 
 
Um miðjan apríl keppti hún á Gefjunni á Líflandsmótinu í Víðidal. Hún keppti í tölti og fjórgangi, en þá sýna knapar auk tölts, gangtegundirnar fet, brokk og stökk. Sigrúnu Helgu gekk mjög vel, en hún varð í fyrsta sæti í tölti og fimmta sæti í fjórgangi. „Það sem er skemmtilegast er bara að fara inn á völlinn og sýna hvað hesturinn er góður.“ Hún ætlar að halda áfram að vera hestakona og keppa þegar hún verður fullorðin. „Mig langar að komast í meistaraflokkinn og landsliðið.“ 
 
Í maí í varð Sigrún Helga Reykjavíkurmeistari og núna í júlí varð hún Íslandsmeistari í slaktaumatölti. Hún ljómar þegar hún lýsir því hvernig var að vinna meistaratitilinn. „Það var geggjuð tilfinning að vinna. „Ég var svo ánægð með hryssuna eftir þetta að ég var að gefa henni nammi og hrósa henni ótrúlega mikið,“ segir Sigrún Helga. „Gefjun er uppáhaldsreiðhesturinn minn.“ Sigrún Helga setur bikarana sína upp á hillu í herberginu sínu. „Pabbi sagði að ég væri búin að vinna svo marga bikara að við þyrftum að fara í IKEA til að kaupa nýja hillu!“
 
 
Arnar Orri
 
„Fjölskyldan hefur verið í hestum síðan afi var 24. Hann vildi verða bóndi en það varð ekkert úr því, þannig að hann ákvað að taka hesta í staðinn,“ segir Arnar Orri. Hann er á öðru ári í menntaskóla og ver frístundum sínum í Víðidal, þar sem fjölskyldan er með um tíu hesta á húsi. Hann er í hestamannafélaginu Fáki. „Við tökum inn í kringum áramót og erum með hestana á húsi frá janúar fram í júní eða byrjun júlí,“ segir Arnar Orri. Hann ríður út nánast daglega og stundum, þegar vel viðrar, oft á dag. Hann ríður helst út með fjölskyldunni eða með félögum sínum, en líka einn ef svo ber undir. Reiðleiðirnar í Víðidal eru fjölbreyttar, segir hann, og hann ríður oftast í kringum Rauðavatn, að Elliðavatni eða á milli Rauðhóla.
 
Þótt Arnar Orri hafi stundað hestamennsku frá barnsaldri var það fyrir þremur árum að áhuginn kviknaði fyrir alvöru. „Þá fór ég í rekstur. Við fórum til ættingja í Borgarfirði og riðum þaðan upp allan Borgarfjörðinn.“ Inntur eftir því hvað var eftirminnilegast úr ferðinni, segir hann: „Bara að vera í kringum dýrin og upplifa náttúruna allt í kring. Hver hestur hefur sinn eiginn persónuleika. Þetta eru miklar félagsverur. Reiðleiðirnar eru afskekktari en göngustígarnir og þar er engin hljóðmengum og engar byggingar. Þar er miklu friðsælla. Meiri ró og kyrrð.“ 
 
Fyrir Arnari Orra er hestamennskan fyrst og fremst áhugamál en ekki keppnisíþrótt, þótt hann geti vel hugsað sér að keppa í framtíðinni. Hann hefur farið á reiðnámskeið og lærði einnig reiðmennsku sem valfag í grunnskóla. Þá sótti hann námskeið sem kallast Knapamerki 1 og 2. Arnar Orri hefur einnig unnið í Reiðskóla Reykjavíkur og lætur vel af starfinu þar. „Það er rosalega gaman að fara í reiðskóla. Þar er mikið félagslíf og fullt af krökkum. Þú upplifir að vera í kringum hesta og vinna með þá og fara í alls konar leiki.“ Þótt það sé tímafrekt að vera í hestamennsku er ávinningurinn þess virði. „Það kannski dettur einhver hluti af félagslífinu út, en þú kynnist fólki sem er í hestum og færð aðra tegund af félagslífi. Hestarnir sjálfir eru miklir karakterar og þér líður aldrei eins og þú ert einn þegar þú ert í kringum þá.“ 
 
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Úr einkasafni. Efsta mynd: Ola Photos.
 
Þessi grein var upphaflega birt í lengri útgáfu í barna- og ungmennatímaritinu HVAÐ, sem kom út í maí 2019.

Gallery

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Share: