April Anderson, einn stofnenda framleiðslufyrirtækisins Art As Air, segir frá tilurð heimildamyndarinnar Tails of Iceland.
April Anderson, einn stofnenda framleiðslufyrirtækisins Art As Air, segir frá tilurð heimildamyndarinnar Tails of Iceland, en hún fjallar um íslenska hesta og tengsl þeirra við fólkið í landinu. Myndin var frumsýnd í Bíó Paradís í Reykjavík í mars og verður sýnd á kvikmyndahátíðinni EQUUS Film Festival í Williamsburg í Brooklyn, Bandaríkjunum, í desember.
 
 
****
 
Þegar við hófum þá vegferð að skapa heimildamyndina Tails of Iceland vildum við kanna og festa á filmu hið margbreytilega og sérstaka samband milli fólksins á Íslandi og óvenjulega hestanna þeirra. Myndin varpar ljósi á menninguna og sumar þeirra þúsunda sagna sem sagðar hafa verið á þeim þúsund árum frá því að hrossakynið var fyrst flutt til þessarar hróstugu og töfrandi eyju. Markmið okkar var að fanga frásagnir og stóran hluta sögunnar, en mikilvægast af öllu var að gera grein fyrir þessari sterku tengingu manna og hesta.
 
Ísland. Þegar fólk annars staðar frá heyrir nafn þessa litla lands koma upp í hugann myndir af vígalegum víkingum, óblíðri náttúru, gjósandi eldfjöllum og feiknin öll af… ís. Það er ekki alveg sannleikanum samkvæmt, vegna þess að stór hluti landsins er þakinn fallegum, skærgrænum mosa bróðurpartinn af árinu.
 
Þegar þú bætir rómantík og dulúð norrænna og keltneskra goðsagna við þessa dásamlegu uppskrift að ferðalagi, verður útkoman ævintýri líkust. Handan við hverja sveigju á veginum leynist draumalandslag sem minnir á yfirborð tunglsins.
 
Síðan eru það íbúarnir. Íslendingar eru nú um 350.000 talsins og algjör hörkutól. Þeir hafa skapað einstaka menningu í gegnum aldirnar í sambýli við óútreiknanleg náttúruöfl. Á þessum tímum óvissu og ómannúðar manna á milli skína þetta land og þessi þjóð sem ljós í myrkrinu. Íslendingar standa fyrir einfaldara samfélag sem byggir á samvinnu, vinnugleði, sjálfbærni og sjálfsbjargarviðleitni.
 
 
Þétt við hlið tvífættra íbúa landsins standa hestarnir þeirra. Á Íslandi eru um 100.000 hestar. Töluvert fleiri íslenska hesta er að finna utan Íslands, sem hafa verið keyptir til annarra landa eða fæddust erlendis, og lögum samkvæmt mega þeir aldrei snúa aftur til föðurlandsins. Margir erlendir hrossasjúkdómar hafa aldrei borist til Íslands og því eru íslenskir hestar meðal þeirra heilbrigðustu í heimi. Þeir eru líka hreinræktaðri en flest önnur hrossakyn, en það er eðli hestanna sem gerir þá svona einstaka.
 
Þeir eru forvitnir og snjallir, fylgja þér eins og hvolpar, ýta við þér eða nudda sér upp við þig ef þú beinir athygli þinni annað. Þeir vilja vera með í öllu og teygja fram flauelsmjúkar snoppurnar. Þeir eru stuttvaxnir og þekktir fyrir fimm gangtegundir, sem eru tveimur fleiri en flest önnur hrossakyn hafa. Flestir fæðast með þessar gangtegundir og það er aðeins eitt annað hrossakyn sem hefur jafn margar náttúrulegar gangtegundir, en það er mongólski hesturinn, sem er talinn vera forfaðir íslenska hestsins.
 
Fyrir þúsund árum síðan þegar hestar voru fyrst fluttir til Íslands frá Skotlandi, Írlandi, Mongólíu og Noregi – skiptar skoðanir eru á því hvaðan hestarnir komu upprunalega – var þeim ætlað að vera vinnudýr og auðvelda lífið fyrir landnemana. 
 
Í dag, sérstaklega á síðustu áratugum, hefur hlutverk hestsins þróast frá því að þurfa strita yfir í að veita félagsskap, taka þátt í keppnum og stuðla að vináttu. Sambandið milli þessara kraftmiklu dýra og fólksins í landinu á sér langa sögu; hestar og menn hafa tekist á við náttúruöflin og áskoranir lífsins á Íslandi í sameiningu.
 
Heimildamyndin Tails of Iceland byrjaði sem (og er enn) verkefni sem stendur hjarta okkar nærri. Við kynntum okkur sögur úr nútímanum og sögulegan bakgrunn hins stórkostlega íslenska hests. Sögurnar eru sagðar af hestaunnendum og fljótlega urðu þær okkur öllum mikil ástríða. Okkur, sem ekki erum innfæddir Íslendingar, fannst sem við hefðum ratað inn í ævintýraveröld, ótrúlegri en nokkuð sem við hefðum getað ímyndað okkur; það var eins og frásagnirnar og reynslusögurnar spryngu út eins og sjaldgæft, framandi blóm. Jafnvel innlendu framleiðendurnir, þegar þeir sáu landið sitt og hestana sína með okkar augum, upplifðu hlutina út frá fersku sjónarhorni og fundu fyrir auknu þakklæti yfir því sem þeir eiga. Að fanga eins margar sögur og við gátum kemur ekki töfrunum að fullu til skila, en það er fjári góð byrjun. Við vonum að þú viljir horfa á myndina og hrífast með…
 
 
****
 
Í upphafi:
 
Þegar ég og Martin, maðurinn minn, flugum heim til Bandaríkjanna eftir okkar fyrstu ferð til Íslands árið 2014, hittum við nýgift hjón á þrítugsaldri sem voru á leið í brúðkaupsferð. Eftir að hafa spjallað allt flugið skiptumst við á upplýsingum og urðum Facebook-vinir. Seinna fréttum við að ungi maðurinn, Kári Örn Hilmarsson, hefði barist við illvígt krabbamein frá 17 ára aldri. Þegar hann var greindur var honum sagt að hann ætti aðeins tvö ár eftir ólifuð. Tíu árum seinna var Kári enn að berjast við sjúkdóminn og fyrir lífi sínu, en hann notaði hann einnig sem áminningu um það að njóta lífsins til fullnustu.
 
Þegar við ákváðum að koma aftur til Íslands sumarið á eftir, 2015, vörðum við degi með Kára og Júlíönu og þau kynntu okkur fyrir hestum fjölskyldunnar. Kári hafði greinilega mjög sterk tengsl við hestana. Það var augljóst strax á fyrstu mínútunum þegar hann eltist við þá og sagði frá nafgift hvers og eins. Þetta var ævintýralegur dagur sem jók forvitni okkar og löngun til að læra meira um landið, þjóðina og, að sjálfsögðu, hestana.
 
 
Sex mánuðum seinna fréttum við að Kári hefði látist vegna fylgikvilla. Meðal þess sem hann skildi eftir sig var gjöf vináttunnar okkar á milli, við móður hans, Ernu Arnardóttur – sem hefur verið hestakona alla sína ævi – og föður hans, Hinrik Gylfason.
 
Árið 2017 var ég að leita að innblæstri fyrir nýtt verkefni og dag einn, eftir augnabliks hugljómun á meðan ég var að spjalla við Ernu, ákváðum við að hefja þessa vegferð saman og skapa heimildamynd um ástríðuna og sambandið milli hestanna og fólksins á Íslandi og hvernig líf þeirra er samofið.
 
Minningin um Kára varð okkur innblástur. Fyrst eftir að við kynntumst sagði hann eitt sinn frá því hvað það að vera lifandi merkti fyrir honum: „Að einhver muni eftir þér. Að þegar þú yfirgefur þessa jörð, geturðu sagt sjálfum þér að þú hafir skilið eitthvað eftir þig.“
 
Við erum þess fullviss að það hefur hann þegar gert og okkur er heiður að því að tileinka verkefnið minningu Kára.
 
Tails of Iceland er eftir:
April Anderson
Ernu Arnardóttur
Martin Chyntil
 
Texti og myndir: April Anderson
Inngangur: Eygló Svala Arnarsdóttir

Gallery

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Share: