Guðrún Stefánsdóttir, lektor í Hestafræðideild Hólaskóla, ræðir niðurstöður rannsóknar sinnar á áhrif þyngdar knapa á líkamlegt ástand íslenska hestsins.
Guðrún Stefánsdóttir, lektor í Hestafræðideild Hólaskóla, ásamt fleirum, birti fyrir tveimur árum niðurstöður rannsóknar um áhrif þyngdar knapa á íslenska hesta á tölti. Rannsóknin var hluti af doktorsverkefni hennar, sem snérist um að mæla líkamlegt álag á íslenska hestinn. Niðurstöðurnar gáfu tilefni til frekari rannsókna, sem nú standa fyrir dyrum.
 
„Íslenski hesturinn er fremur smár sem reiðhestur, að meðaltali um 140 cm á herðakamb og 350 kg, samanborið við mörg önnur reiðhestakyn sem eru á milli 155 og 170 cm á hæð á herðakamb og vega um 450-550 kg. Þess vegna lítur fullorðið fólk út fyrir að vera stórir knapar á íslenskum hestum og hlutfall þunga knapa af þunga hests verður oft hærra en tíðkast hjá erlendum reiðhestakynjum,“ segir Guðrún um kveikjuna að rannsókninni. „Það að þessi litli reiðhestur beri stóra knapa hefur fengið aukna athygli, umræðu og gagnrýni, einkum síðustu ár. Þess vegna er mikilvægt að rannsaka vísindalega hvað þetta þýðir fyrir íslenska hestinn að bera misþunga knapa.“
 
 
Lóðum er bætt við í hnakk.
 
Guðrún útskýrir að líffræðilega flokkist íslenski hesturinn sem smáhestur og að erlendis tíðkist oftast ekki að smáhestar beri fullorðna knapa. Á Íslandi, hins vegar, hefur íslenski hesturinn verið reiðhestur fyrir fullorðna frá landnámi, jafnframt því að vera vinnudýr. Hún færir fyrir því rök að íslenski hesturinn sé „alvöru reiðhestur“ enda hafi hann verið ræktaður markvisst sem slíkur í tæp 70 ár. Hann sé „gangmikill, kröftugur og viljugur og aldalöng reynsla hefur sýnt að hann ræður vel við að bera fullorðna knapa og hefur langan endingaraldur.“ Þessi markvissa ræktun hefur leitt til þess að „íslenski hesturinn er nánast kvaðratískur í hlutföllum, byggingarlagið frekar samanrekið, lendin hallandi og fætur sverir miðað við líkamsþunga.“
 
Erlendis er oft talað um að knapi eigi ekki að vera þyngri en ákveðið hlutfall af þyngd hests. „Gömul viðmiðun úr hernaði segir að hestar eigi ekki að bera meira en 20% af eigin þunga. Okkur vitanlega eru ekki vísindalegar rannsóknir þar að baki,“ segir Guðrún. „Á Íslandi var til orðið „hestburður“ en það voru 100 kg sem var það magn sem hver hestur var talinn geta borið af heyi þegar hestar voru notaðir við heyskap, gjarnan langa vinnudaga. Á þeim tíma voru hestarnir minni en í dag, og líklega hefur þyngd þeirra verið um 300 kg. Það eru til erlendar viðmiðanir sem segja að asnar og múldýr geti borið 1/3 af eigin þyngd við vinnu.“ Hún bendir á að vinnudýr fari oftast á feti og að hraði hafi mikil áhrif á líkamlegt álag við hreyfingu. Ennfremur bendir hún  á að það sé ekki endilega æskilegt að miða við hlutfall af eigin þunga hests því að ef hann er feitur er gert ráð fyrir að hann geti borið þyngri knapa, auk eigin aukakílóa.
 
Í rannsókninni reið sami knapinn átta mismunandi hestum, fullorðnum skólahestum í góðri þjálfun, en blý-lóðum var bætt við á hnakk og í vesti knapa. Mesta þyngd sem hestarnir báru var 35% af eigin þunga, eða 128 kg að meðaltali. Riðið var á meðalhröðu tölti (5.4 m/s), stutta vegalengd (2 × 300 m með hverja þyngd, 20%, 25%, 30%, 35%, og endurtekin 20%) í stuttan tíma. Hestarnir þoldu álagið vel. „Þeir voru búnir að jafna öndun 15 mín eftir þjálfunarprófið, hjartslátt 30 mín eftir það og þeir voru ekki aumir eða sárir í vöðvum né ójafnari á gangi eða haltir, en það var metið bæði fyrir rannsóknina og svo til samanburðar 24 og 48 klukkustundum eftir rannsóknina,“ útskýrir Guðrún.
 
 
Sérútbúni hnakkurinn.
 
Leitast var við að einangra áhrif þyngdarinnar, því fjölmargir aðrir þættir eins og jafnvægi og reiðfærni knapans skipta máli, sem og holdarfar og þjálfunarstig hestsins, hraði, vegalengd og umhverfisaðstæður. Tölt var valið, m.a. vegna þess að það er sú gangtegund sem íslenski hesturinn er þekktastur fyrir og sem er vinsælust, t.d. í hestaferðum.
 
Þótt að allir hestarnir hafi þolað álagið vel, kom einnig í ljós að þeir áttu misauðvelt með að bera aukna þyngd. „Í rannsókninni kom fram mikill einstaklingsbreytileiki milli hesta,“ segir Guðrún og bætir við að það sé líka reynsla hestamanna að hestar séu missterkir. „Á þessu stigi málsins er ekki hægt að segja að það sé til „réttur mælikvarði“ til að meta hversu mikinn þunga hestur getur borið. En okkar rannsókn benti alla vega til að stærðin ein og sér sé ekki einfaldur mælikvarði til að nota, stærri hestar eru ekki endilega sterkari en minni hestar.“ Rannsóknin gaf til kynna að breitt og vel vöðvafyllt bak gæti skipt máli.
 
Guðrún segir mikilvægt að hestamenn læri að lesa í viðbrögð hestanna þegar burðargeta þeirra er metin. „Þeir verða að læra að hlusta á hestinn og horfa eftir þreytueinkennum, t.d. hvort hesturinn mæðist, svitnar, vilji dofnar. Fylgjast með eymslum í baki, skrokk, fótum.“ Einnig er hægt að mæla hjartslátt, en hraðari hjartsláttur gefur vísbendingu um aukið erfiði og athuga hversu fljótur hesturinn er að jafna sig. 
 
Guðrún bendir þó á að það sé eðlilegt að hesturinn fái slík einkenni við þjálfun. „Við þekkjum sjálf að við getum tímabundið orðið mjög móð, aum, stirð eða jafnvel næstum hölt eftir erfiða þjálfun. Það er í sjálfu sér ekki endilega hættulegt tímabundið og er hluti af eðlilegu þjálfunarferli þegar verið er að byggja upp styrk og þol. Það er hins vegar ekki gott ef slíkt ástand varir til langs tíma,“ segir hún. „Við þurfum að vera næm að hlusta eftir skilaboðum sem hesturinn gefur okkur. T.d. getur verið gott að hafa létta daga eða jafnvel hvíld eftir erfiða daga í þjálfun.“
 
 
Viðfangsefnið, knapinn og rannsakendurnir.
 
Spurð að því hvort hægt sé að gefa út leiðbeiningar um hámarksþyngd sem íslenskir hestar geta borið, svarar Guðrún því til að það sé afar flókið vegna fjölda annarra þátta sem hafa áhrif á líkamlegt álag. „Það má til dæmis velta fyrir sér hvort sé erfiðara fyrir hest að bera 100 kg knapa á feti í 20 mín eða 70 kg knapa sem ríður hratt á tölti í 20 mín,“ segir hún. „En það eru til rannsóknir sem sýna ótvírætt að það er almennt erfiðara fyrir hesta að bera knapann eftir því sem hann er þyngri. Það er til dæmis skýrt að þegar knapaþyngdin er orðin 30% eða meira af líkamsþyngd hestsins er marktækt meira álag en ef knapaþyngdin er 20 eða 25% af þyngd hestsins – miðað við að hesturinn sé í reiðhestsholdum og aðrir þættir – t.d. hraði við þjálfun – séu ekki breytilegir.“ Hún segir því ekki útilokað að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir ákveðnar aðstæður, t.d. ákveðnar gerðir hestaferða.
 
Ein af niðurstöðum rannsóknarinnar var að frekari rannsókna sé þörf til að svara því hversu mikla þyngd íslenskir hestar geti borið. „Við erum búin að fá styrki frá Stofnverndarsjóði íslenska hestsins og Framleiðnisjóði landbúnaðarins til að fara í áframhaldandi rannsóknir á áhrifum af þyngd knapa á líkamlegt álag á íslenska hestinn, í samstarfi við sænska landbúnaðarháskólann í Uppsala,“ upplýsir Guðrún. „Við viljum þróa þjálfunarpróf sem getur sagt til um burðargetu íslenskra hrossa fyrir útreiðar og aðra almenna notkun. Auk þess viljum við skoða hvort er samband á milli sköpulags og vöðvasamsetningar – t.d. gerða vöðvaþráða – og burðargetu hjá íslenskum hestum.“ Ennfremur stendur til að rannsaka hvort megi auka burðargetu hesta með þjálfun og skoða mismunandi þjálfunaraðferðir til þess. „Síðan ætlum við að rannsaka hvort megi nýta og heimfæra niðurstöðurnar frá íslenska hestinum yfir á önnur hestakyn,“ segir Guðrún að lokum.
 
Rannsakendur eru að leita að doktors- og meistaranemum til að taka þátt í rannsókninni með þeim. Áhugasamir geta sent póst á netfangið: gudrunst@holar.is
 
Lesið alla rannsóknina hér.
 
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Úr rannsókninni.

Gallery

0 0 0 0 0 0 0

Share: