Það glittir á haustliti í skógarþykkninu. Hestar og menn þræða skógarstíga, þeysa yfir tún og klöngrast upp brattar hlíðar. Umhverfið er framandi en hrossakynið kunnuglegt. Í hálfa öld hafa eigendur íslenskra hesta í Rhön-héraði í miðju Þýskalandi skipulagt herrareið að hausti og glaðst með vinum, ættingjum og sínum heittelskuðu reiðskjótum.

Árið 1963 var Raban Feuerstein, eigandi hænsnabýlisins Frauenholz í Rhön-héraði í miðju Vestur-Þýskalandi (nálægt landamærum þáverandi Austur-Þýskalands), lagður inn á sjúkrahús. Læknana grunaði að hann hefði fengið fyrir hjartað vega streitu og ráðlögðu honum að finna sér eitthvert áhugamál. Kona hans, Charlotte, var hrifin af hestum og gaf honum bókina, „Heißgeliebte Islands-Pferde“ („Heittelskuðu Íslandshestar“) eftir Ursulu Bruns, en á þeim tíma var áhugi Þjóðverja á hrossakyninu að vakna. Hjónin urðu sér úti um tvo hesta, sem urðu fyrstu íslensku hestarnir í Rhön, og fóru að rækta.

„Mamma var kveikjan að þessu öllu,“ segir Josef Feuerstein, sonur hjónanna, en hann og systkini hans fimm hafa öll lagt stund á hestamennsku. „Í gegnum tíðina hefur Rhön verið fátækt hérað og íbúarnir þurft að streða til þess að lifa af.“ Staðan batnaði á síðustu öld, en þó var oft erfitt að ná endum saman og húsdýr voru mikilvæg til nytja og vinnu. „Hestar þóttu munaður og fólk reið ekki út sér til skemmtunar.“

En með komu íslensku hestanna átti þetta eftir að breytast. Ættingjar og vinir hjálpuðu Feuerstein fjölskyldunni að byggja hesthús, hlöðu og að koma upp girðingum, og fengu í staðinn folöld að gjöf. Þannig óx stofninn í Rhön og samhliða því áhugi heimamanna á íslenskum hestum, m.a. hjá Wigbert Feuerstein, bróður Raban, upphafsmanni herrareiðarinnar.

„Hér er landið grýtt og veður heldur kalt og þess vegna hentar það íslenskum hestum vel,“ segir Josef. Rhön er í þremur sambandsríkjum: Hessen (þar sem Feuerstein fjölskyldan býr), Þýringalands (þ. Thüringen, sem tilheyrði áður Austur-Þýskalandi) og Bæjaralands (þ. Bayern). Nafn héraðsins er líklega af sama meiði og íslenska orðið „hraun“, en þar má finna gosberg. Landið er heldur hálent og þar sem skógur hefur víða verið ruddur til jarðræktar er þar einnig víðsýnt.

Feuerstein fjölskyldan reið gjarnan um fallegt landslag héraðsins, þar sem vilji, fótvissa og meðfærileiki íslensku hestanna nutu sín. Í október 1969 lagði Wigbert ásamt tveimur félögum upp í þriggja daga leiðangur um heimaslóðirnar. Þeir skemmtu sér svo vel að hestaferðalagið varð að árvissum viðburði. Fyrstu helgina í október ár hvert býður Feuerstein fjölskyldan vinum sínum að taka þátt í þriggja daga karla- eða „herrareið“ („Herrenritt“) um Rhön.

Í fyrra fór reiðin fram í fimmtugasta skipti. Þá var riðið frá Frauenholz til norðausturs í gegnum Rhön og til bæjarins Eckweisbach. „Við vorum 37 sem tókum þátt og riðum um 35 km á dag,“ segir Josef, en hann og bræður hans, Nicolaus og Alexander, hafa tekið við sem skipuleggjendur herrareiðarinnar. Leiðangursmenn koma víða að, frá nyrstu og syðstu héruðum Þýskalands, og 10-15 manna kjarni tekur þátt á hverju ári. Sá elsti er 83 ára, en yngsti þátttakandinn til þessa 10 ára. „Við fengum fallegt veður. Það var óvenju heitt: 18 gráður fyrsta daginn. Annan daginn var þoka, en þriðja daginn var útsýnið úr fjöllunum stórfenglegt.“

Í upphafi riðu leiðangursmenn alltaf sama hringinn, en síðustu ár hafa þeir farið mismunandi leiðir og ríða gjarnan upp á hæstu hæðir héraðsins til að njóta útsýnisins. Þeir gista á gistiheimilum og sleppa hestunum í hólf hjá kunningjum í nágrenninu.

„Fyrsta kvöldið er bara fyrir strákana,“ segir Josef, en þá er spilað og skálað í bjór. „Annað kvöldið mega konurnar koma.“ Sabine, eiginkona Josefs, rifjar upp eitt skipti þar sem hvatt var til þess að konurnar klæddust þjóðbúningum („Dirndl“) í tilefni Oktoberfest. „En svo var ég sú eina sem mætti í Dirndl!“ segir hún og hlær. „Og ég gat montað mig af því hvað ég á fallega konu,“ bætir Josef kíminn við. Konurnar fara í sína eigin reið í ágúst, svokallaða „Heksenritt“, eða „nornareið“, sem hefur verið við lýði í rúm 40 ár.

Í síðustu herrareið var 50 ára afmælinu fagnað með veislu. Kvikmynd, sem tekin var upp í fimmtu reiðinni árið 1974, var sýnd. „Hún er mjög hrífandi, með fallegri tónlist og sögumanni,“ segir Josef. „Fyrir okkur er þetta hluti af arfleifðinni.“ Myndin fangar vel anda reiðarinnar, vináttu og gleði þátttakenda sem er við lýði enn í dag. „Ferðin gengur út á að ríða hestum í þessu landslagi og að skemmta sér með strákunum,“ útskýrir hann. „Hestarnir hvetja til þess. Íslenski hesturinn er undursamlegur. Svo vinalegur að það koma varla upp vandamál í reiðinni. Og ef maður vill, er líka hægt að fá sér sprett.“

Upphafsmenn reiðarinnar voru heiðraðir, m.a. Charlotte, móðir Josefs. Hún treysti sér ekki til að mæta, en Heike, tengdadóttir hennar, tók við viðurkenningu í hennar stað. Fyrir utan að hafa ásamt manni sínum keypt fyrstu íslensku hestana til Rhön, tók Charlotte frá upphafi virkan þátt í herrareiðinni. „Síðasta kvöldið var alltaf haldin kveðjuveisla og tengdamamma eldaði fyrir alla, grýtu, ofnrétt, lasagne eða súpu. Eitthvað sem var auðvelt að undirbúa fyrir marga,“ segir Sabine. „Það fór enginn svangur heim!“ skýtur Josef inn í. Sökum aldurs varð Charlotte að láta af þessari hefð fyrir nokkru. Dóttir hennar, Dorothee, aðstoðaði við eldamennskuna og Charlotte bauð reiðmönnum upp á snafs. Charlotte lifði 50 ára afmæli reiðarinnar, en hún lést í árslok 2018, 92 ára að aldri.

Þótt upphafsmenn herrareiðarinnar, Charlotte, Raban, Wigbert og fleiri, séu horfnir af braut, lifir hefðin áfram og styrkist ár frá ári. „Slagorð okkar er „Nach dem Herrenritt ist vor dem Herrenritt“,“ segir Josef, eða: „Eftir herrareiðina er fyrir herrareiðina“. Hann er þegar farinn að skipuleggja 51. ferðina, sem verður 11.-13. október 2019. „Það hefur aldrei neinn Íslendingur riðið með okkur. Við höfum ósvikna íslenska hesta, en engan Íslending!“ segir hann og hvetur áhugasama til að hafa samband (jobb@herrenritt.de) og upplifa gleðina með þeim. „Á þessum 50 árum hefur aldrei orðið alvarlegt slys,“ tekur hann fram. „Og það eru einnig meðmæli með íslenska hestinum.“

 

HÉR má horfa á myndina frá 1974, en hún er eftir Otto Herber og Peter Maubach.

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Josef Feuerstein.

Gallery

0 0 0 0 0 0 0

Share: