Árið 2017 stofnuðu Landgræðsla ríkisins og Félag hrossabænda landnýtingarverkefnið Hagagæði til þess að hrossabændur og aðrir sem halda hross geta fengið það staðfest með formlegum hætti að landnýting þeirra sé sjálfbær.

Árið 2017 stofnuðu Landgræðsla ríkisins og Félag hrossabænda landnýtingarverkefnið Hagagæði til þess að hrossabændur og aðrir sem halda hross geta fengið það staðfest með formlegum hætti að landnýting þeirra sé sjálfbær. Landgræðslan annast úttektir hrossahaga og veitir ráðleggingar varðandi landnýtingu. „Þessi bú í Hagagæðum eru mörgum öðrum til fyrirmyndar. Landlæsi hefur aukist, það að skilja þau skilaboð sem landið gefur frá sér um ástand þess,“ segir verkefnisstjóri Bjarni Maronsson. Fjöldi þátttakenda er nú 47, en það eru hrossabú sem staðist hafa úttektarkröfur Hagagæða og hlotið viðurkenningu fyrir sjálfbæra nýtingu beitarlands.

„Landið er alltaf að senda okkur einhver skilaboð, eins og lífverur, um hvernig því líður,“ bætir Bjarni við. „Það er mikið atriði að þeir sem eru að nýta landið, hrossabændur, sauðfjárbændur og ferðaþjónustuaðilar, skilji hvað er að gerast með landinu.“ Til margs er að vinna, útskýrir Bjarni. „Ef ofbeit er viðvarandi á viðkvæmu landi getur það rofnað varanlega, eins og gerst hefur á Íslandi í gegnum aldir, og gróðurfar breyst til hins verra. Í öllum tilfellum verður ekki jafn mikil uppskera og eðlilegt gæti talist.“ Bjarni segir takmarkið ekki vera friðun heldur góða beitarstýringu.

Heilsu hrossa hrakar einnig á ofbitnu landi. „Þegar fer verulega að sverfa að högunum getur það farið að bitna á ástandi hrossa, sérstaklega unghrossum og mjólkandi hryssum. Fullorðnu hrossin sem eru búin að taka út þroska bjarga sér á ótrúlega litlu, en ungviði í vexti og hryssur sem mjólka þurfa gott beitarland og góða aðhlynningu árið um kring.“

Bjarni segir frá forsögu Hagagæða: „Um 1980 voru settar framleiðslutakmarkanir á sauðfé og mjólk og hverri jörð úthlutað sérstökum framleiðslukvóta, sem nefndist búmark. Bændur þurftu einhvern veginn bæta upp tekjutapið og sumir tóku að fjölga hrossum.“ Bjarni segir að lengi vel var jafnvægi í framleiðslu og sölu, en síðan tóku við „köld ár“. „Fram undir 2000 voru víða jarðir ofsetnar hrossum og beitastýringu ábótavant. Hrossabændur lágu undir ámæli fyrir þetta.“

Landgræðslan gerði forkönnun á beitarlandi árin 1995-96 og þá kom í ljós að beitarástand var mjög misjafnt. Árið 2000 átti Félag hrossabænda frumkvæðið að því að stofna Gæðastýringu í hrossarækt. Óskað var eftir því að Landgræðslan hefði eftirlit með hrossahögum þannig að þeir sem hefðu góða stjórn á nýtingu beitarlands fengju það viðurkennt.

„Síðan þá hefur árferðið batnað, það hefur verið meiri grasvöxtur og veðurfar hagstætt gróðri. Hrossum hefur fækkað töluvert og beitastýring stórlagast,“ segir Bjarni. Gæðastýring í hrossarækt var aflögð árið 2016, en áhugi var fyrir því að stofna sérstakt verkefni utan um landnýtingarþáttinn. Þau 44 bú sem höfðu staðist úttektarkröfur Gæðastýringar í hrossarækt urðu sjálfkrafa þátttakendur í Hagagæðum og fyrsta ár verkefnisins bættust þrjú við.

Héraðsfulltrúar Landgræðslunnar meta beitarlönd að hausti og nota til þess einkunnarskala. „0 er best og 5 er verst. 0 er óbeitt land og eykst álagið eftir því sem talan hækkar. Ef land fer í flokk 5 er það yfirleitt töluvert mikið rofið og þarfnast oft uppgræðslu, eða allavega friðunar,“ útskýrir Bjarni. „Hross geta skemmt land varanlega, en það er líka hægt að græða upp land með hrossum með því að færa þau til og frá að vetrinum með rúllugjöf á ófrjósamt land,“ bendir hann á. „Eftir stendur áburður í heyinu og skítnum.“

Nýlega gekk Hagagæði til liðs við Horses of Iceland sem nýr samstarfsaðili. Forsvarsmenn verkefnisins vilja vekja athygli á þessu mikilvæga starfi og fá fleiri til að taka þátt. „Ef virkir þátttakendur væru í kringum 70, gæti það smitað enn frekar út frá sér. Jafnvel þótt það taki ekki allir þátt í Hagagæðum fer fólk frekar að passa upp á landið sitt af því að nágranninn geri það.“

Áhugasamir geta haft samand við Bjarna (bjarni@land.is) eða kynnt sér verkefnið á heimsíðu Landgræðslunnar: www.land.is/hagagaedi

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Bjarni Maronsson.


 

Share: