FEIF YouthCamp, ungmennabúðir alþjóðasamtaka íslenska hestsins, voru haldnar í Hestheimum á Suðurlandi, 7.–14. júlí 2019. Þátttakendur skemmtu sér vel og eignuðust nýja vini, en hápunkturinn var þriggja tíma reið í íslenskri náttúru.
„Já. Martin Luther King er gott dæmi,“ samsinnir Karen Emilía Barrysdóttir Woodrow. Formaður æskulýðsdeildar Landssambands hestamannafélaga (LH) situr uppi á borði umkringd táningum frá mismunandi löndum í borðstofunni í Hestheimum, hrossabúi og gistiheimili á Suðurlandi. Frá 7. til 14. júlí í ár var þetta bækistöð FEIF YouthCamp, ungmennabúða alþjóðasamtaka íslenska hestsins. Nú eru þátttakendur að læra leiðtogafærni, en Karen hefur leitt mörg námskeið á því sviði sem nefnast Young Leaders Seminar. „Hvað var það sem gerði Martin Luther King að góðum leiðtoga?“ spyr hún og nokkrir rétta upp hönd. „Rétt. Hann hafði mikinn sannfæringarkraft. Hann var góður í því að sannfæra fólk.“ 
 
 
Karen með nemendum sínum.
 
Í búðunum eru 32 ungir hestaunnendur (13–17 ára), sem flestir eru áhugareiðmenn. Krakkarnir koma frá 11 mismunandi Evrópulöndum og fararstjórar fylgja hverjum hóp. Ungmennabúðirnar tengjast ekki aðeins hestum og hestamennsku, en markmið þeirra er framar öðru að auka tengsl ungra hestamanna frá mismunandi löndum og vináttu, útskýrir Karen. Hún hefur séð um að skipuleggja hópefli og fræðsludagskrá, en fráfarandi formaður æskulýðsdeildar LH, Helga B. Helgadóttir, um skemmtidagskrána. „Við byrjum alltaf á hópefli, að hrista hópinn saman,“ segir Helga. „Þau þekkjast ekki endilega fyrir.“ Á þessum vikutíma hafa krakkarnir farið á hestasýningu á Friðheimum, ferðast um Gullna hringinn, m.a. að Geysisvæðinu og Gullfossi, farið í verslunarleiðangur til Reykjavíkur (aðallega til að kaupa hestadót) og fengið sér pítsu og ís. Reiðtúrar hafa að sjálfsögðu einnig verið inni í dagskránni, bæði styttri og lengri túrar.
 
Karen gerir hlé á kennslunni og þátttakendur skreppa út til að viðra sig. Við frá Horses of Iceland fylgjum þeim út á tún, þar sem ræktunarmerar Hestheima eru á beit ásamt folöldunum sínum, og tökum tvo þeirra tali. „Ísland er ótrúlegt land – þetta er þrátt fyrir allt land íslenska hestsins!“ segir Bo frá Belgíu. Hún á tvo íslenska hesta og finnst skemmtilegast að keppa á þeim. Hún hefur komið til Íslands áður, en aldrei verið hér í búðum sem þessum með sínum jafningjum og hún segir hrifin frá vinunum sem hún hefur eignast. En hápunktur dvalarinnar var þriggja tíma reiðtúr. „Ferðin var mjög skemmtileg. Við könnuðum landið og landslagið var fallegt. Í Belgíu eru byggingar alls staðar. Nálægt heimilinu mínu er reiðleiðir utandyra, en við þurfum að keyra með hestana í hestakerru í tíu mínutur til að komast þangað. Það gerir hestunum gott að ríða úti. Mig langar að gera meira af því. Þá eru þeir frjálsari,“ segir hún. „Mér líður vel innan um hesta. Þá get ég verið ég sjálf. Ein með sjálfri mér og enginn fer í taugarnar á mér.“
 
 
Bo frá Belgíu.
 
Anders, sem býr í Suður-Noregi, hefur aldrei ferðast til Íslands áður. Fjölskyldan hans á fjóra íslenska hesta og hann ríður út á hverjum degi. Hann þjálfar sína eigin hesta og keppir á þeim. „Mér líkar það mjög vel,“ segir hann og brosir. Hann er ánægður með ungmennabúðirnar. „Það er gaman að kynnast nýju fólki,“ segir hann. En hann tekur undir það með Bo að þriggja tíma reiðtúrinn standi upp úr. Að vera á hestbaki í ósnortinni náttúru og hrjóstugu landslagi er sérstök upplifun, segja þau. „Það var mjög skemmtilegt,“ ítrekar Anders. „Við riðum innan um kindur, á þröngum stígum í opnu landslagi. Og við fengum góða kjötsúpu!“
 
 
Anders frá Noregi.
 
Helga hefur tekið þátt í æskuýðsstarfi LH í áratugi og hjálpaði til við að skipuleggja ungmennabúðir FEIF í hin tvö skiptin sem þær voru haldnar á Íslandi, árin 1992 og 2005. Þótt hún hafi ákveðið að láta af formennsku æskulýðsdeildar LH langaði hana til að taka þátt í skipulagningu FEIF YouthCamp 2019 áður en hún hætti endanlega. „Það er ótrúlega gaman að hafa hóp af ungu fólki hérna sem er tilbúið að prufa nýja hluti og þróa vinskapinn,“ segir Helga. „Þau verða oft vinir út lífið. Það hefur meira að segja komið hjónaband út úr þessu! Það var stelpa frá Noregi og strákur frá Íslandi sem kynntust í YouthCamp.“ Við frá Horses of Iceland heimsækjum ungmennabúðirnar næstsíðasta daginn og krakkarnir eru að undirbúa dagskrá fyrir kvöldvöku. Skipuleggjendurnir verða líka með atriði. Helga hlær við tilhugsunina. „Við höfum beðið krakkana að fara út fyrir sinn þægindaramma, svo það er ekki nema sanngjarnt að við gerum það líka!“
 


Karen og Helga.
 
Uppruna ungmennabúðanna má rekja aftur til ársins 1986 þegar FEIF skipulagði alþjóðlega æskuviku ásamt hollensku samtökum íslenska hestsins. Tveimur árum síðar var FEIF YouthCamp haldið í Þýskalandi og hafa búðirnar verið haldnar með skipulögðum hætti undir því nafni síðan, annað hvert ár í mismunandi aðildarlandi FEIF, bæði í Evrópu og Norður-Ameríku. Bikarkeppnin FEIF YouthCup er haldin annað hvert ár á móti búðunum. Markmið þeirra er að styrkja tengsl ungra unnenda íslenska hestsins þvert á landamæri og kynna þá fyrir hestamenningu gestgjafanna. Í vikunni sem búðirnar standa yfir eru ýmsir viðburðir á dagskrá, bæði með og án hesta, allt frá fjallgöngum yfir í föndur og jafnvel póló á íslenskum hestum. Þátttakendur þurfa ekki að vera atvinnureiðmenn en ættu að hafa einhverja reynslu af hestum. Æskulýðsstarfi FEIF er ætlað að vekja athygli á mismunandi menningarheimum og sérstaklega hestamenningum mismunandi þjóða, hækka staðalinn á öllum þáttum hestamennsku og styrkja alþjóðleg tengls. 
 
Frekari upplýsingar má finna á feif.org.
 
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Gígja Einarsdóttir.

Gallery

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Share: